GRÆNA SLÓÐIN

Græna Slóðin liggur um sögusvið Fjalla-Eyvindar okkar frægasta útilegumanns sem fæddur var árið 1714. Það er ekki alveg vitað afhverju hann og lífsförunautur hans Halla völdu að flýja á vit fjallanna sennilega um 1760 og eyða þar næstu tveimur áratugunum sem útilegumenn. Þau þvældust víða um hina Íslensku fjallasali og dvöldu mislengi á hverjum stað. Eyvindarhver sem hefur fasta viðveru á hverasvæðinu á Hveravöllum er eitt af kennileitum sem segja til um ferðir þeirra. En þau eru mörg fleiri víðsvegar um öræfin.

Græna Slóðin liggur frá hverasvæðinu framhjá torf og grjót skjólinu því fyrsta sem gangnamenn síðari tíma reistu á Hveravöllum og þaðan áfram að Eyvindarhelli þar sem þau skötuhjú földu sig með sitt illa fengna sauðfé sem hélt þeim jafnt og öðrum landsmönnum á lífi við hin hörðu skilyrði. Slóðin liðast svo áfram um hraunið inn að Eyvindarrétt stórri hraunmyndun sem er eiginlega tilbúin fjárrétt af náttúrunnar hendi.

Slóðin hlykkjast um hraun og mosafláka og af og til brýst hiti undirheimana upp á yfirborðið. Fuglalíf getur verið talsvert í hrauninu en svo geta menn líka rekist á tófu sem keppir um svæðið við fuglinn. Gönguleiðin á upphaf sitt efst á hverasvæðinu eða suðvestur kantinum. Þar er að finna minningu um útilegumenninna og og fornar rústir frá þeirra tímum. Græna slóðin er auðfundin og stikuð og þá að sjálfsögðu með grænum stikum.