RAUÐA SLÓÐIN

Rauða slóðin liggur um brúna og grá og svarta hraunfláka sumstaðar mosagróna en annarstaðar veðurbarða upp að Strýtum, gígnum í miðju Kjalhrauninu þaðan sem hraunið rann fyrir um 7000 árum síðan. Leiðin er þægilega aflíðandi upp að gígnum og þarf ekki að vera þjálfaður göngugarpur til þess að njóta ferðarinnar. Þó hraunið sé víða bert er samt þó nokkur gróður líka sem náð hefur fótfestu í gegn um árin sjöþúsund. Víða liðast gufa upp í gegn um sprungur og getur sú sýn breytt fallegum degi í hreint töfraland. Þvermál sjálfs gígsins er um 1 kílómetri og getur verið gaman að ganga hringinn í jaðrinum og svo inn í gígmiðjuna þar sem hægt er að príla ofan í gíginn. Fjallahringurinn í þessari göngu er hreint út sagt stórbrotinn með hið tignarlega Hrútfell í forgrunninn á leiðinni inneftir.